Greinargerð þessi er rituð í framhaldi af ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, sem haldin var þann 20. janúar 2012 af innanríkisráðuneytinu, lagadeild Háskóla Íslands og Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, í samvinnu við Evrópuráðið.
Ráðstefnan var í þremur hlutum. Í þeim fyrsta var fjallað um kynferðisbrot gegn börnum í tengslum við sáttmála Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Í öðrum hluta var fjallað um meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu út frá þverfaglegu sjónarhorni. Í þriðja hluta ráðstefnunnar var svo boðið upp á þrjár málstofur með aðkomu fræðimanna, lögreglu, saksóknara, dómara, lögmanna og frjálsra félagasamtaka. Sú fyrsta fjallaði um samspil barnaverndarkerfisins og refsivörslukerfisins; í annarri var rætt um rannsóknir og ákærur í nauðgunarmálum og í þeirri þriðju var fjallað um trúverðugleika og sönnunarmat.
Ráðstefnan var með eindæmum fagleg og áhugaverð og voru mætt á hana margir af helstu sérfræðingum okkar á þessu sviði. Ég sat málstofuna sem fjallað var um trúverðugleika og sönnunarmat því ég hugðist fjalla um umræðuna um kynferðisbrot gegn konum en þegar frá leið ákvað ég að skoða frekar meðferð kynferðisbrota gegn börnum og hvað sé til ráða til að koma í veg fyrir að slík brot geti átt sér stað.
Það voru lokaorð Róbert R. Spanó, prófessors og forseta lagadeildar Háskóla Íslands sem breyttu stefnu minni. Hann fjallaði um tillögur að lagabreytingum vegna innleiðingar Evrópuráðssamningsins um varnir gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun barna. Hann viðurkenndi að afstaða hans varðandi rannsóknir á kynferðisbrotum hefði breyst í þá átt að ekki ætti að nálgast eða rannsaka kynferðisbrot gegn börnum á sama hátt og önnur brot. Hann kvað forvirkar aðgerðir nauðsynlegar í þeim málaflokki vegna mikilvægi þess til að reyna að koma í veg fyrir að þau ættu sér stað.
Þessi orð hans sátu í huga mér vegna eigin reynslu. Sem starfandi lögreglufulltrúi hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra til 12 ára var ég um nokkurra ára skeið ábyrg fyrir málaflokknum ,,barnaklám á Netinu" en það þýddi afgreiðslu og vinnslu á öllum tilkynningum er bárust um kynferðisbrot gegn börnum á Netinu, bæði erlendis frá og í gegnum ábendingalínu barnaheilla.
Sumarið 2007 fékk ég svo það einstaka tækifæri að gegna þriggja mánaða þjónustu hjá einni af tölvuglæpadeildum FBI, því stofnunin bauð embætti ríkislögreglustjóra að senda einn fulltrúa til þjálfunar og þátttöku í alþjóðlegu samstarfsteymi til stuðnings rannsóknum á Netinu, Innocent Images International Task Force, sem sett hafði verið á laggirnar af FBI árið 2004. Þar lærði ég margt nýtt um málaflokkinn frá sjónarhóli lögreglu, m.a. hvernig finna megi á leynilegan hátt þá sem hlaða niður og dreifa myndefni sem inniheldur kynferðisbrot gegn börnum. Vegna skorts á skilningi og áhuga yfirmanna hjá ríkislögreglustjóra hef ég lítið getað gert með þá reynslu fram að þessu en vil nú gera bragarbót á því.
Umræðan í samfélaginu, bæði hjá borgurum og fjölmiðlum, um kynferðisbrot gegn konum snýst mikið um hvaða mögulegu ábyrgð fórnarlambið beri á verknaðinum! Talað er um tælingu kvenna, klæðaburðinn og hversu afgerandi NEI þeirra var og þar með sett einhverskonar ósýnileg mælistika á trúverðugleika þeirra og mögulegan þátt þeirra eða samþykki. Með þess konar umræðu er gert lítið úr þeim skýlausa rétti þeirra til að segja NEI við nauðgun, hvar sem er og hvenær sem er. Almennu hegningarlögin okkar eru skýr en þar segir í 194. gr. laganna: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum"
Umræðan í samfélaginu um kynferðisbrot gegn börnum er alls ekki eins hávær. Spurningar um það hvort barn geti sagt NEI við nauðgun eða misneytingu við foreldri, forráðamann eða einstakling sem það treystir og er kennt af samfélaginu að það skuli treysta skilyrðislaust heyrast varla. Eins og fyrr sagði þá er það réttur allra samkvæmt lögum að mega segja NEI við kynlífi en á sama tíma er börnum kennt að hlýða því sem foreldrar og forráðamenn segja þeim því það sé þeim fyrir bestu. Fyrir börn sem beitt eru kynferðislegu ofbeldi felst hrópleg þversögn í þessum skilaboðum. Börn sem ekki hafa náð kynþroskaskeiði skilja tæplega hvað kynlíf er og skilja því ekki heldur að þau mega segja NEI. Hegningalögin eru einnig mjög skýr hvað þessi brot varðar. 1. málsgrein 201 gr. hljóðar svo: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 18 ára, sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg eða barn, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skal sæta fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barn yngra en 16 ára."
STAÐAN Á ÍSLANDI
Kynferðisbrot gegn börnum viðgangast á Íslandi jafnt sem annars staðar í heiminum. Í gögnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árin 2006 - 2009 kemur fram að fjöldi þolenda kynferðisbrota yngri en 18 ára á landsvísu var 504 og þar af er yfirgnæfandi meirihluti þeirra stúlkur eða 436 (Stefán Eiríksson, 2011). Tekið skal fram að þessar tölur endurspegla einungis þau brot sem tilkynnt voru til lögreglu.
Í íslensku rannsókninni, Börn þvinguð til kynlífs, sem gerð var á árunum 2000-2001, kemur hins vegar fram að 17% Íslendinga hafi mátt þola kynferðislega misnotkun og þar af var meirihluti þeirra stúlkur undir 13 ára aldri. Um var að ræða, í flestum tilfellum, grófa eða mjög grófa misnotkun sem átti sér stað oftar en einu sinni. (Hrefna Ólafsdóttir, 2011). Ef þessar tölur og fjöldi þolenda samkvæmt tölfræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er borin saman sést að stærstur hluti kynferðisbrota gegn börnum kemur aldrei inn á borð lögreglu. Það þýðir að þetta mein er vel falið innan veggja heimilisins í skjóli friðhelgi þess sem aftur þýðir að fjölskyldur þessara barna og samfélagið er ekki að gangast við þeirri ábyrgð sem þeim ber skylda til samkvæmt barnaverndarlögum.
SKAÐSEMI KYNFERÐISBROTA GEGN BÖRNUM
Kynferðislegt ofbeldi, sama hversu alvarlegt það er, hefur alltaf skaðleg áhrif á börn en áhrifin virðast vera meiri og varanlegri því nærri sem gerandinn stendur barninu. Þolendur slíkra brota eiga í flestum tilfellum fyrir höndum erfiða þrautagöngu sem varað getur lífið á enda (Sigrún Sigurðardóttir og Sigríður Halldórsdóttir, 2011).
Nauðgun eða kynferðisleg misnotkun feðra á dætrum sínum er eitt alvarlegasta kynferðisbrotið. Misnotkunin hefst oftast fyrir kynþroskaskeið stúlkunnar og stendur yfir langt tímabil. Slík misnotkun getur valdið alvarlegum andlegum röskunum ásamt því að í fjölskyldum sem búa við slíkan óhugnað má finna eitt sjúklegasta afbrigðið af feðraveldinu þar sem móðirin er oftast of vanmáttug til að gegn hlutverki sínu sem verndari barnsins vegna eigin þjáninga og veikleika. Langvarandi kúgun og jafnvel ofbeldi gerir þær háða eiginmanni sínum, valdalausar og vanmáttugar í sambandinu. Flest þessi mál líta aldrei dagsins ljós því yfir þeim hvílir leynd þar sem allir fjölskyldumeðlimir og jafnvel fólk í nær umhverfi þeirra þegja yfir skömminni (Herman, 1981).
FORVARNIR OG LEIÐIR TIL LAUSNAR
Eins og fram hefur komið eru kynferðisbrot gegn börnum afar alvarlegt samfélagslegt mein og ef satt reynist, að rúmlega sjötti hver Íslendingur verði fyrir kynferðisofbeldi í æsku ættu þær upplýsingar að setja allt á annan endann. Reykingar eru skaðlegar heilsu okkar en ekkert í samanburði við þennan óhugnað. Samt er umræðan um skaðsemi reykinga margfalt háværari en kynferðisbrot gegn börnum.
Frjáls félagasamtök hafa verið einna háværust í umræðunni um alvarleika kynferðisbrota á börnum. Samtökin Blátt áfram voru stofnuð í apríl 2004. Tilgangur þeirra er að halda úti forvarnar- og fræðslustarfi gegn kynferðisofbeldi á börnum á Íslandi fyrir stofnanir, foreldra og einstaklinga og hafa þau unnið mikið og þarft starf. Á heimasíðu sinni kynna þau 7 skref til verndar börnum sem er áætlun til að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi.
Barnaheill voru stofnuð 1989 en þau hafa barnasáttmála sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu stafi. Þeirra áhersla felst í því að berjast gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál og að sjá til þess að rödd barna heyrist í íslensku samfélagi. Barnaheill hafa haldið úti neyðarhnappi fyrir tilkynningar um kynferðisbrot gegn börnum á Netinu í samvinnu við Save the Children á Íslandi, SAFT, Heimili og skóla, Embætti landlæknis og ríkislögreglustjóra.
Eins og ég drap á í upphafi þá er aðkoma mín að þessum málaflokki frá hendi lögreglu en hún er einmitt einn af þeim opinberu aðilum sem hefur lögbundið hlutverk í því að vernda börn gegn kynferðislegu ofbeldi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir að við rannsóknir kynferðisbrota gegn börnum skuli sömu reglur og viðmið gilda og við rannsóknir annarra sakamála. Hann kveður reyndar rannsakendur þurfa að búa yfir sérstakri reynslu við rannsóknir á þessum brotum sökum þess að fórnarlömbin búi í mörgum tilfellum ekki yfir nægum þroska til að tjá sig um sakarefnið né geti skilið það til fulls (Stefán Eiríksson, 2011).
Þessari afstöðu lögreglustjóra er ég ekki sammála og tel að íslensk lögregla og réttarkerfið í heild geti og eigi að gera mun meira en nú þegar er gert til að koma í veg fyrir að þessi brot getir átt sér stað. Byggi ég það mat mitt á þeirri þekkingu og skilningi sem ég öðlaðist við dvöl mína hjá FBI. Í lok árs 2007 skrifaði ég grein í blað Landsambands lögreglumanna um þessa reynslu og er eftirfarandi kafli úr þeirri grein: FCC Butner, Federal Correctional Complex, er eitt af endurhæfingarfangelsum á vegum FBI. Þar er boðið uppá endurhæfingu fyrir þá fanga sem eru á leið aftur út í þjóðfélagið. Við þessa stofnun starfa fjölmargir sérfræðingar, læknar, sálfræðingar og félagsráðgjafar og er þar af leiðandi góður grundvöllur til að framkvæma rannsókn á hegðun hinna ýmsu brotamanna. Sérfræðingar hafa lengi velt því fyrir sér hversu hátt hlutfall þeirra sem hlaða niður eða dreifa barnaklámi á Internetinu fremji einnig kynferðis brot gagnvart börnum en sú tilhneiging hefur verið ríkjandi að líta mildari augum á þá kynferðisbrotamenn sem eingöngu eru dæmdir fyrir vörslu/dreifingu á barnaklámi. Í grein í The New York Times, sem birt var þann 19. júlí 2007, koma hins vegar fram sláandi niðurstöður úr opinberri rannsókn sem farið hefur fram undanfarin ár í Butner, en sú rannsókn hefur enn ekki fengist birt í heild sinni vegna viðkvæmra upplýsinga sem þar koma fram. Niðurstöður rannsóknanna hafa hins vegar gengið á milli fræðimanna vegna mikilvægis þeirra, en þær gefa til kynna að 85% þeirra sem afplána dóm eingöngu fyrir vörslu/dreifingu á barnaklámi á netinu, hafi einnig framið kynferðisbrot gagnvart barni, allt frá óviðeigandi snertingu til nauðgunar. Þar sem verslun með barnaklám á netinu hefur aukist gríðarlega undanfarin ár er það skoðun margra sérfræðinga að þessi rannsókn skuli gerð opinber hið fyrsta svo auðveldara sé að bera kennsl á þá einstaklinga sem segjast einungis skoða þetta efni á netinu en gætu mögulega verið virkir barnaníðingar. Aðrir vilja þó ekki ganga eins langt þar sem þeir segja að þátttakendur rannsóknarinnar hafi allir verið sjálfboðaliðar og ekki sé hægt að fullyrða að hegðun þeirra endurspegli hegðun allra þeirra sem skoði barnaklám (Gná Guðjónsóttir, 2007). Í ljósi þessara upplýsinga má sjá sterka fylgni milli notkunar Netsins og skoða þar myndir til að svala barnagirnd sinni og þess að láta undan þeirri girnd með því að nauðga eða misnota barn í raunveruleikanum. Má því draga þá ályktun að sama eigi við um þá sem beita börn kynferðisofbeldi hér á Íslandi. Myndin af pabba, saga Thelmu, styður þá ályktun. Í bókinni lýsir Thelma meðal annars ljósmyndaáhuga föður síns, og því hvers eðlis myndir hans voru en þar er hún að lýsa dæmigerðum uppstillingum sem þekkjast á myndum sem flokkast undir barnaklám (þessi fullyrðing er byggð á eigin reynslu sem lögreglumaður við að fara yfir slíkar myndir í tengslum við rannsóknir mála). Yfirvöld á Íslandi geta gert betur með því að taka þá ákvörðun að nýta þá tækni sem fyrir hendi er til að stunda eftirlit á Netinu eins og annarsstaðar í þjóðfélaginu svo handsama megi annars ósýnilega brotamenn með því að skyggnast inn í tölvur þeirra sem hlaða niður og dreifa slíku efni. Með slíkum aðgerðum lögreglu aukast líkurnar á því að fleiri barnaníðingar, sem annars væru ósnertanlegir í skjóli friðhelgis heimilanna, verði afhjúpaðir (Bourke og Hernandez, 2008). Þar með auka yfirvöld stórlega sinn þátt í forvörnum gegn kynferðisbrotum á börnum og einmitt á sviði sem engum öðrum er fært að vinna. Slíkar aðgerðir væru einnig raunverulegur áfangi að því mikilvæga markmiði að tryggja jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins, öllum til heilla.
Heimildir
Amenn hegningarlög nr. 19/1940 með áorðnum breytingum 61/2007
Barnaheill. Sótt 7. mars 2012 af http://www.barnaheill.is
Blátt áfram. (e.d.) 7 skref til verndar börnum. Sótt 7. mars 2012 af http://www.blattafram.is/7skref/document.pdf.
Gerður Kristný og Thelma Ásdísardóttir. (2005). Myndin af pabba - Saga Thelmu. Reykjavík: Vaka -Helgafell
Gná Guðjónsdóttir. (2007, desember). Samantekt á rannsóknum FBI á barnaklámi á Netinu. Lögreglumaðurinn, bls. 8-13.
Herman, J. og Hirschman, L. (1977). Father-daughter incest. Signs: Journal of Women in Culture and Society, 2, 735-756.
Hrefna Ólafsdóttir. (2011). Börn þvíngur til kynlífs: Rannsókn á kynferðislegri misnotkun á börnum. Í Svala Ísfeld Ólafsdóttir (ritstjóri), Hinn launhelgi glæpur (bls. 235-265). Reykjvavík: Háskólaútgáfan
Michael L. Bourke og Andres E. Hernandez (2008). The ‘Butner Study’ Redux: A Report of the Incidence of Hands-on Child Victimization by Child Pornography Offenders. Sótt 7. mars 2012 af http://cakidscoalition.com/uploads/3/0/0/8/3008529/butnerstudy_-_correlation_btwn_users_and_abusers.pdf.
Sigrún Sigurðardóttir og Sigríður Halldórsdóttir, 2011. Þögul þjáning: Samanburður á áhrifum kynferðislegs obeldis í bernsku á heilsfar og líðan íslenskra karla og kvenna. Í Svala Ísfeld Ólafsdóttir (ritstjóri), Hinn launhelgi glæpur (bls. 317-350). Reykjvavík: Háskólaútgáfan.
Stefán Eiríksson, 2011. Rannsókn kynferðisbrota gegn börnum. Í Svala Ísfeld Ólafsdóttir (ritstjóri), Hinn launhelgi glæpur (bls. 109-131). Reykjvavík: Háskólaútgáfan.
--------------------------------------------
[ 1 ]. 1. gr. Réttindi barna og skyldur foreldra.
Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.
Allir sem hafa uppeldi og umönnun barna með höndum skulu sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.
Tilkynningarskylda og aðrar skyldur við barnaverndaryfirvöld.
16. gr.
Tilkynningarskylda almennings. Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða.
17. gr.
Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum. Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
18. gr.
Tilkynningarskylda lögreglu og skýrslutaka af börnum. Ef lögregla verður þess vör að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu skal hún tilkynna barnaverndarnefnd um það. Þegar grunur leikur á að refsiverður verknaður hafi verið framinn annaðhvort af barni eða gegn því skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins. Barnaverndarnefnd skal tilkynna foreldri barns um slíkt mál mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því. Um skýrslutökur af börnum sem brotaþolum, sakborningum eða vitnum í opinberum málum, hvort heldur sem er á rannsóknarstigi eða við meðferð máls fyrir dómi, gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mála og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim.